Glæsilegt met hjá Magnúsi

Brúarhlaup Selfoss var haldið síðastliðinn laugardag. Eitt HSK met var sett í hlaupinu en Magnús Jóhannsson, Frískum Flóamönnum, setti met í flokki 60-64 ára í 5 km götuhlaupi.

Magnús hljóp á 23:17 mín og stórbætti fimm ára gamalt HSK met Hannesar Stefánssonar, en metið var 26:15 mín.

Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem Magnús setur HSK met en hann skellti sér í 5 km hlaupið að þessu sinni í tilefni af 25 ára hlaupaferli sínum. Hans fyrsta keppnisgötuhlaup var 5 km Brúarhlaup árið 1992.

Þátttaka í Brúarhlaupinu var heldur dræm að þessu sinni en aðeins tóku 111 hlauparar og 61 hjólreiðamaður þátt í hlaupinu. Keppt var í 2,8 km skemmtiskokki, 5 km hlaupi, 10 km hlaupi og 5 km hjólreiðum.

Í 2,8 km hlaupi sigraði Dagur Fannar Einarsson í karlaflokki á 9:14 mín og Jóhanna Elín Halldórsdóttir í kvennaflokki á 12:00 mín.

Í 5 km hlaupi sigraði Sigurjón Ernir Sturluson í karlaflokki á 16:54 mín og Helga Guðný Elíasdóttir í kvennaflokki á 19:41 mín.

Í 10 km hlaupi var Valur Þór Kristjánsson fyrsti karlinn í mark á 35:15 mín og Fríða Rún Þórðardóttir fyrsta konan á 38:50 mín.

Í hjólreiðum sigraði Arnar Hlynur Ómarsson annað árið í röð á 10:08 mín. Katrín Ágústsdóttir var fyrsta konan í mark á 13:00 mín.

Fyrri greinEgill eini Íslendingurinn á HM
Næsta greinSelfoss styrkti stöðu sína á toppnum