Glæsilegir sigrar HSK fólks

Héraðssambandið Skarphéðinn hefur tryggt sér sigurinn í stigakeppni félaganna á 27. Landsmóti UMFÍ á Selfossi. HSK fólk vann fjölmarga sigra í dag.

Að loknum þriðja keppnisdegi er HSK með 2.225,5 stig en þar á eftir kemur Ungmennasamband Kjalarnesþings með 904 stig. Engin spenna er því lengur í stigakeppninni.

HSK vann góða sigra í dag um allt mótssvæðið. Meðal annars sigruðu Hreinn Heiðar Jóhannsson og Fjóla Signý Hannesdóttir í hástökki og Kristinn Þór Kristinsson í 400 m hlaupi en í frjálsíþróttakeppninni hefur HSK tæplega 50 stiga forystu á Íþróttabandalag Reykjavíkur. Ágúst Þór Guðnason vann sín fjórðu og fimmtu gullverðlaun í dag í frjálsíþróttum fatlaðra en hann sigraði bæði í 400 m hlaupi og kúluvarpi.

Jóhanna Eyvinsdóttir Christiansen varð landsmótsmeistari í -84 kg flokki í kraftlyftingum og Rósa Birgisdóttir varð landsmótsmeistari í +84 kg flokki.

HSK sigraði stigakeppnina í taekwondo og þar varð Ísak Máni Stefánsson landsmótsmeistari í poomsae karla 4.geup – 1. geup. Dagný María Pétursdóttir varð landsmótsmeistari í sparring í kvennaflokki 1 og Davíð Arnar, bróðir hennar, varð meistari í sparring í karlaflokki 1. Guðni Elvar Björnsson sigraði í sparring í karlaflokki 3 og Daníel Bergur Ragnarsson sigraði í sparring í karlaflokki 6.

Þá sigraði sveit HSK í golfi með frábærri spilamennsku og lið HSK sigraði bæði í knattspyrnu karla og kvenna. Í motocrossinu sigraði HSK einnig í karlaflokki.
Í starfsíþróttunum vann HSK þrefaldan sigur í hestadómum þar sem Oddur Hafsteinsson sigraði og einnig var þrefaldur HSK sigur í að leggja á borð en þar varð Ólöf Sæmundsdóttir landsmótsmeistari. Á morgun lýkur starfsíþróttunum með keppni í pönnukökubakstri.
Lið HSK rökuðu síðan til sín verðlaunum á glæsilegu fimleikamóti í Iðu í kvöld þar sem HSK sigraði bæði í karla- og kvennaflokki, sem og í flokki blandaðra liða.
Fyrri greinTveir gómaðir úr þyrlu
Næsta greinMenningarferð um fuglafriðlandið