Glæsileg inniaðstaða tekin í gagnið

Golfklúbbur Selfoss tók á dögunum í gagnið nýja innanhúss æfingaaðstöðu að Gagnheiði 32 á Selfossi. Þar geta meðlimir klúbbsins og aðrir æft sveifluna og púttstrokuna fyrir sumarið, auk þess sem að í húsnæðinu verður skrifstofa framkvæmdastjóra klúbbsins og einskonar félagsmiðstöð fyrir meðlimi.

„Þetta breytir öllu. Þetta eykur félagsstarf, eykur gæði kylfinga í klúbbnum sem þýðir að þeir verða áhugasamari iðkendur,” segir Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri GOS, um nýju aðstöðuna. „Þetta styrkir þar með kjarnann í klúbbnum,” bætir hann við.

Í æfingaaðstöðunni eru pútt- og vippæfingasvæði og þrír pallar þar sem hægt er að slá kúlur í net. Þá hefur einnig verður settur upp glænýr golfhermir sem golfklúbburinn festi kaup á nýlega. Hermir þessi gerir golfurum kleyft að spila golf þegar aðstæður utandyra leyfa það ekki.

Hlynur Geir kynnti herminn fyrir meðlimum og gestum þegar aðstaðan var opnuð. Fjölmargir mættu til að kynna sér herlegheitin enda skiptir aðstaða sem þessi miklu máli fyrir kylfinga í æfingum þeirra til þess að geta metið flug golfboltans. Alls þurfti þrjár kynningar til þess að allir gætu lært á herminn, svo mikil var aðsóknin og áhuginn.

„Golfhermirinn þýðir aukna þjónustu fyrir meðlimi Golfklúbbs Selfoss. Það er okkar von að þeir verði ánægðir að geta stundað íþróttina öllum stundum,” segir Hlynur Geir.

Aðstaðan verður opin alla daga frá kl. 10 til 22. Þeir sem vilja nýta sér golfherminn geta pantað tíma á vefsíðu GOS. Meðlimir annarra klúbba eru einnig velkomir að nýta sér aðstöðuna sem verður þó ódýrari fyrir meðlimi GOS.

Fyrri greinKveikt í rusli við Sunnulækjarskóla
Næsta greinBörn og eldri borgarar í Árborg fá gefins árskort