Gissur gefur kost á sér

Gissur Jónsson og Guðmundur Kr. Jónsson, heiðursformaður HSK. Ljósmynd/Engilbert Olgeirsson

51. sambandsþing Ungmennafélags Íslands verður haldið á Hótel Laugabakka í Miðfirði um helgina.

Á þinginu fara fram kosningar í stjórn. Örn Guðnason, varaformaður UMFÍ, sem hefur verið fulltrúi HSK í stjórn undanfarin ár, gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Þá mun Hrönn Jónsdóttir ritari ekki gefa kost á sér. Hrönn kemur frá UMSB, en býr nú á sambandssvæði HSK. Aðrir núverandi stjórnar- og varastjórnarmenn gefa kost á sér til endurkjörs.

Gissur Jónsson framkvæmdastjóri Umf. Selfoss hefur ákveðið að gefa kost á sér í stjórn UMFÍ og væntanlega munu fleiri ný framboð berast. Svo skemmtilega vill til að tveir af þremur forverum Gissurar í stóli framkvæmdastjóra Selfoss hafa átt sæti í stjórn UMFÍ, þau Kristín Gísladóttir og Örn Guðnason.

Fjölmargar tillögur verða lagðar fram á þinginu og búast má við að umsókn íþróttabandalaga að UMFÍ fái mesta umfjöllun á þinginu.

Rétt til setu á þinginu eiga 160 fulltrúar allra sambandsaðila UMFÍ, átján héraðssambanda og níu félaga með beina aðild, auk stjórnar UMFÍ og starfsfólks. Héraðssambandið Skarphéðinn á rétt á að senda átján fulltrúa á þingið og mun HSK senda fullmannað þinglið, líkt og undanfarin ár.

Þingið verður sett á föstudag kl. 18:00 og samkvæmt dagskrá verður þinginu slitið klukkan 14:00 á sunnudag.

Fyrri greinSætur eins marks sigur á ÍBV
Næsta greinSólheimajökull heldur áfram að hopa