„Gíruðum okkur vel inni í seinni hálfleikinn“

Árborg vann torsóttan 4-0 sigur á nágrönnum sínum frá Stokkseyri í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Árborgarar halda toppsæti riðilsins.

„Við gáfum þeim mikið bensín inn í leikinn hjá sér í fyrri hálfleik og vorum latir í okkar vinnu, sem ég bjóst ekki við. Við gáfum þeim tíma á boltann og vorum að opna okkur of mikið. Við fengum ágætis færi en þeir voru inni í leiknum og fengu líka sín færi,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Ég vil hins vegar hrósa liðinu fyrir það hvernig brást við í hálfleik og við gíruðum okkur vel inn í seinni hálfleikinn. Stokkseyringar fengu ekki færi í seinni hálfleik og sáu aldrei til sólar. Við lokuðum á allt sem þeir reyndu að gera, létum boltann ganga vel í sókninni og kláruðum dæmið,“ sagði Guðjón ennfremur.

Stokkseyringar voru sterkari í fyrri hálfleik en bæði lið fengu nokkur dauðafæri. Á 39. mínútu hefðu til dæmis bæði lið getað komist yfir. Maður leiksins, Eyþór Atli Finnsson, varði þá gott skot frá Árborgaranum Tómasi Hassing og Stokkseyringar brunuðu í kjölfarið í sókn. Bjarni Már Ólafsson slapp einn innfyrir Árborgarvörnina en Einar Guðni Guðjónsson varði frábærlega frá honum. Þetta var eina skotið sem Einar þurfti að verja í leiknum, en hinu megin hafði Eyþór Atli nóg að gera og varði hvert skotið á fætur öðru frá sóknarmönnum Árborgar.

Eitthvað varð þó undan að láta hjá Stokkseyringum og eftir markalausan fyrri hálfleik kom Tómas Kjartansson Árborg yfir á 4. mínútu síðari hálfleiks eftir glæsilega stoðsendingu Arnars Freys Óskarssonar. Árborgarar réðu lögum og lofum í síðari hálfleik og Stokkseyringar fengu ekki teljandi færi.

Mörkin létu þó á sér standa hjá heimamönnum og það var ekki fyrr en á síðustu tíu mínútunum að allar flóðgáttir opnuðust og Árborg skoraði þrjú mörk á átta mínútna kafla.

Eiríkur Raphael Elvy kom inná sem varamaður í sínum fyrsta leik í sumar eftir meiðsli á 70. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði hann afar snyrtilegt mark með skoti úr teignum og aftur lagði Arnar Freyr upp markið. Þremur mínútum síðar skoraði Hartmann Antonsson með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu og á 88. mínútu kórónaði Daníel Ingi Birgisson 4-0 sigur með góðu marki eftir magnaðan sprett.

Árborgarar eru áfram ósigraðir í toppsæti A-riðils með 22 stig en Stokkseyri er í 5. sæti riðilsins með 6 stig.

Fyrri greinElísabet Jökuls á Bókamarkaðnum
Næsta greinDaníel tryggði Hamri mikilvæg stig