Gírkassinn bilaði í blálokin

Fyrsta umferð Íslandsmótsins í rallakstri fór fram á Suðurnesjum um helgina. Fimmtán áhafnir mættu til leiks.

Það var Akstursíþróttafélag Suðurnesja sem hélt þessa fyrstu rallýkeppni ársins.

Spennan var mikil strax í upphafi en margir fyrrum Íslandsmeistar voru mættir til leiks og ljóst að hart yrði barist um verðlaunasæti. Fór enda svo að einungis örfáar sekúndur skildu að fyrstu fjögur sætin þegar næturhlé var tekið á föstudagskvöldið. Ein áhöfn hafði fallið úr leik um þá kvöldið.

Spennan var gríðarleg þegar áhafnirnar fjórtán mættu á laugardagsmorguninn. Eknar voru þrjár sérleiðir um Djúpavatn, hraðinn jókst með hverri leið og viðbúið var að eitthvað yrði undan að láta.

Álagið var mikið, bæði á bifreiðar sem og áhafnir en systkinin Daniel og Ásta Sigurðarbörn voru fyrst í toppbaráttunni til að falla úr leik. Einnig lentu þeir Hennig Ólafsson og Árni Gunnlaugsson fljótlega í vandræðum með túrbínu í Subaru-bifreið sinni. Þeim tókst þó að leysa vandann en töfðust all verulega sem gerði vonir þeirra um veðlaunasæti að engu.

Á síðustu Djúpavatnsleiðinni náðu Valdimar J. Sveinsson og Skafti Skúlason að slíta sig frá Baldri Haraldssyni og Aðalsteini Símonarsyni með frábærum akstri og bættu þeir tíma sinn þar um 40 sekúndur. Var þá orðið nokkuð ljóst hverjir myndu skipa fyrsta og annað sætið en hörð barátta var um þriðja sætið á milli Eyjólfs Melsteð og Heimis Snæs Jónssonar annars vegar og Sunnlendinganna Þórs Lína Sævarssonar og Sigurjóns Þórs Þrastarsonar hinsvegar.

Við upphaf næst síðustu sérleiðar voru ellefu áhafnir eftir en ekið var um Helguvík. Það er stutt sérleið en þeir félagar Þór Líni og Sigurjón Þór féllu þar úr leik með bilaðan gírkassa þegar einungis 5 km voru alls eftir í endamark. Höfðu þeir ekið gríðarlega vel, fóru rólega af stað á föstudeginum en gáfu í og yljuðu efstu mönnum all verulega allan laugardaginn. Voru það veruleg vonbrigði en þeir félagar hafa jafnt og þétt bætt aksturstækni sína og hraða.

Sigurvegarar urðu þeir Valdimar og Skafti á Mitubishi Evo 7 en í öðru sæti urðu þeir Baldur og Aðalsteinn á Subaru Impreza Sti, einungis 16 sek á eftir. Í þriðja sæti urðu svo þeir Eyjólfur og Heimir Snær á Cherokee en þeir sigruðu einnig í jeppaflokki.

Næsta umferð Íslandsmótsins er áætluð í byrjun júlí. Er það Bifreiðaíþóttaklúbbur Reykjavíkur sem stendur að henni en áætlað er að aka um Snæfellsnes ef veður og færð leyfa.

Fyrri greinSelfoss fékk ÍBV í bikarnum
Næsta greinTeitur og Harpa hlupu hraðast