Gígja kláraði leikinn í framlengingunni

Hamar vann góðan sigur á Grindavík á útivelli í spennandi leik í 1. deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Framlengja þurfti leikinn sem lauk með 60-65 sigri Hamars.

Hamar byrjaði ekki vel í leiknum og Grindavík leiddi 18-5 að loknum 1. leikhluta en staðan var 33-19 í hálfleik.

Hamarskonur voru hins vegar mun sprækari í seinni hálfleiknum og þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af 4. leikhluta var staðan orðin 50-50. Þá tók við kafli þar sem Grindavík hafði frumkvæðið en Hamar svaraði alltaf fyrir sig. Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði síðustu körfu venjulegs leiktíma þegar 1:40 mín voru eftir á klukkunni og jafnaði 57-57. Liðunum gekk hins vegar bölvanlega að skora sigurkörfu á lokamínútunni og því þurfti að grípa til framlengingar.

Þar sá Gígja Marín Þorsteinsdóttir um að klára leikinn fyrir Hamar en hún skoraði öll átta stig liðsins í framlengingunni, á meðan Grindvíkingum tókst aðeins að skora eina þriggja stiga körfu.

Álfhildur var best í liði Hamars í kvöld, skoraði 16 stig og tók 13 fráköst auk þess sem hún sendi 7 stoðsendingar. Helga Sóley Heiðarsdóttir átti sömuleiðis fínan leik og skoraði 13 stig.

Hamar er áfram í 6. sæti deildarinnar með 8 stig en þetta var fjórði sigur liðsins í vetur. Grindavík er í 4. sæti með 16 stig.

Tölfræði Hamars: Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 16/13 fráköst/7 stoðsendingar, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 15, Helga Sóley Heiðarsdóttir 13/5 fráköst/5 stolnir, Þórunn Bjarnadóttir 6/10 fráköst, Bjarney Sif Ægisdóttir 4, Katrín Eik Össurardóttir 4/4 fráköst, Margrét Hrund Arnarsdóttir 3/6 fráköst, Ragnheiður Magnúsdóttir 2/6 fráköst, Vilborg Óttarsdóttir 2.

Fyrri greinHeiðin opin – Þrengslin opin
Næsta greinRisahaglél á Selfossi