„Getum verið meira en stoltar af okkar leik“

Selfoss er úr leik í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu eftir hetjulega framgöngu gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum á Selfossvelli í kvöld.

„Þetta er mjög svekkjandi niðurstaða. Það lá svolítið á okkur í fyrri hálfleik en eftir að við náðum að jafna fannst mér við hafa yfirburði á vellinum og það skipti engu máli þó að við værum tíu á móti ellefu,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, eftir leik.

„Við vorum ferskar í framlengingunni og komumst sanngjarnt yfir þannig að það var mjög sárt að fá jöfnunarmark í andlitið í blálokin. Vítaspyrnukeppni er bara þannig að það geta allir klúðrað. Við sáum Messi og Gylfa og fleiri klúðra á HM og þetta hefði getað dottið hvoru megin sem var. Við getum verið meira en stoltar af okkar leik í dag.“

Það hallaði aðeins á Selfyssinga í fyrri hálfleik en Caitlyn Clem, markvörður liðsins, átti frábæran leik og neitaði Stjörnukonum um að skora í fyrri hálfleik.

Á 53. mínútu komst Stjarnan svo yfir þegar Harpa Þorsteinsdóttir laumaði sér innfyrir vörnina eftir frábæra fyrirgjöf og skoraði af stuttu færi. Kristrún Rut Antonsdóttir jafnaði metin átta mínútum síðar og í kjölfarið fóru hlutirnir að gerast.

Strax mínútu síðar fékk Caitlyn Clem rauða spjaldið fyrir að brjóta á Guðmundu Óladóttur og Stjarnan fékk víti. Emma Higgins, varamarkvörður Selfoss, varði hins vegar spyrnuna af öryggi og í kjölfarið tvíefldust Selfyssingar.

Manni færri voru heimakonur mun hættulegri en þeim tókst þó ekki að skora og leikurinn því framlengdur. Þar héldu þær vínrauðu uppteknum hætti og Magdalena Reimus skoraði 2-1 í fyrri hálfleik framlengingarinnar. Seinni hluti hennar var þó Selfyssingum erfiður og Stjörnukonur lágu í sókn á köflum. Þær laumuðu svo inn jöfnunarmarki þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum og þar var Harpa aftur á ferðinni. Lokatölur 2-2 og því gripið til vítaspyrnukeppni.

Allyson Haran skaut fyrstu spyrnu Selfyssinga í stöngina en Stjörnukonur nýttu allar sínar spyrnur, sigruðu vítakeppnina 4-5 og samtals 6-7. Fyrir Selfoss skoruðu Magdalena, Alexis Kiehl, Karitas Tómasdóttir og Anna María Friðgeirsdóttir af punktinum.

Fyrri greinÁrborgarar kveðja Ástu
Næsta greinÆgir varð undir í Garðabænum