Getspakir Selfyssingar

Tveir getraunaseðlar með 13 réttum komu fram hjá Selfossgetraunum í Tíbrá um helgina.

Gissur Jónsson, getraunastjóri Selfyssinga, sagði í samtali við sunnlenska.is að reyndar hafi 2.260 aðrir seðlar komið fram með 13 rétta í gær svo að vinningsupphæðin hafi ekki verið að setja fólk úr jafnvægi.

“En það er til mikils að vinna í Tíbrá á hverjum laugardegi,” bætti Gissur við.

Nýr getraunaleikur hófst hjá Selfyssingum í gær og enn er hægt að vera með en ágóðinn af getraunastarfinu fer í rekstur 2. flokks karla og kvenna.