Gestirnir tóku völdin í 4. leikhluta

Aleksi Liukko skoraði 22 stig og tók 14 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn fengu Sindra frá Hornafirði í heimsókn á Flúðir í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Hrunamenn byrjuðu vel í leiknum og leiddu 28-20 undir lok 1. leikhluta. Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta og heimamenn höfðu forystuna í hálfleik, 43-38.

Þegar leið á seinni hálfleikinn tóku Sindramenn leikinn í sínar hendur. Þeir jöfnuðu 57-57 þegar rúm ein mínúta var eftir af 3. leikhluta og komust yfir í framhaldinu. Forskot gestanna jókst smátt og smátt í síðasta fjórðungnum og þeir sigruðu að lokum, 78-92.

Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur Hrunamanna með 28 stig og 6 fráköst, Aleksi Liukko skoraði 22 stig og tók 14 fráköst og Sam Burt skoraði 11 stig.

Hrunamenn eru í 11. sæti deildarinnar með 6 stig en Sindri í 4. sæti með 26 stig.

Fyrri greinHera Fönn og Bryndís Klara skrifuðu verðlaunasmásögur
Næsta greinAfgreiddu leikinn á fyrsta korterinu