Gestirnir sterkari í Frystikistunni

Kvennalið Hamars tapaði 56-87 þegar Valur kom í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði í Domino's-deildinni í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af fyrsta leikhluta en Valur lauk honum á 1-8 áhlaupi og leiddi 14-23 að tíu mínútum liðnum. Forskot Vals jókst enn frekar í 2. leikhluta og staðan var 29-41 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleik en Hamarskonum tókst ekki að minnka muninn. Valskonur luku leiknum hins vegar af krafti í 4. leikhluta, unnu leikhlutann 7-21 og leikinn 56-87.

Sydnei Moss var stigahæst hjá Hamri með 17 stig, en aðeins 22% skotnýtingu úr opnum leik. Moss tók 12 fráköst að auki. Salbjörg Sævarsdóttir skoraði 15 stig, Sóley Guðgeirsdóttir 8, Heiða Valdimarsdóttir 7, Helga Ingvarsdóttir 4, Vilborg Óttarsdóttir 3 og Jóna Ólafsdóttir 2.

Hamar er í 7. sæti deildarinnar með 4 stig.

Fyrri grein„Virtist undrandi á mannaferðum“
Næsta greinKlukkur og úr á sýningu í Þorlákshöfn