Gestirnir hirtu stigin

Selfoss tók á móti Haukum í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Gestirnir reyndust sterkari og fóru með sigur af hólmi, 23-27.

Haukar tóku frumkvæðið strax í upphafi leiks og juku forskotið jafnt og þétt. Staðan var 10-17 í hálfleik en þrátt fyrir að Selfyssingar hafi haft betur í síðari hálfleik tókst þeim ekki að brúa bilið. Að lokum skildu fjögur mörk liðin að, 23-27.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Carmen Palamariu voru markahæstar hjá Selfyssingum með 6 mörk. Harpa Brynjarsdóttir skoraði 4 mörk, Þuríður Guðjónsdóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2 og þær Hildur Öder Einarsdóttir og Perla Albertsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Selfoss er nú í 9. sæti deildarinnar með 11 stig en Haukar eru í 5. sæti með 18 stig.

Fyrri greinPóstafgreiðslunni lokað á Klaustri
Næsta greinMarín Laufey Íslandsmeistari