Gestirnir alltaf skrefinu á undan

Dagný Lísa Davíðsdóttir sækir að körfu Grindavíkur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór tapaði stórt þegar liðið fékk Grindavík í heimsókn í Hveragerði í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 56-88.

Hamar-Þór fór hægt af stað í leiknum og gestirnir frá Grindavík komust í 4-14. Þá bundu heimakonur saman vörnina og svöruðu fyrir sig með 12-2 áhlaupi. Staðan var 16-18 að loknum 1. leikhluta og munurinn var lítill fram í miðjan 2. leikhluta. Þá settu Grindvíkingar niður þrjár þriggja stiga körfur á stuttum tíma og staðan var skyndilega 26-40. Grindavík leiddi 28-44 í leikhléi.

Heimakonur í Hamar-Þór náðu að minnka muninn í tólf stig í upphafi seinni hálfleiks en nær komust þær ekki og illa gekk að finna körfuna á köflum. Grindavík var með gott forskot undir lok 3. leikhluta og Hamar-Þór náði ekki að saxa neitt á forskotið í síðasta fjórðungnum.

Dagný Lísa Davíðsdóttir var allt í öllu hjá Hamri, hún skoraði 33 stig og tók 13 fráköst. Hrafnhildur Magnúsdóttir kom næst með 9 stig, 8 stoðsendingar og 6 stolna bolta.

Hamar-Þór er í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Grundavík er í 3. sæti með 18 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs: Dagný Lísa Davíðsdóttir 33/13 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 9/4 fráköst/8 stoðsendingar/6 stolnir, Elektra Mjöll Kubrzeniecka 4, Ása Lind Wolfram 4, Perla María Karlsdóttir 2, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 2/6 fráköst, Dagrún Inga Jónsdóttir 2.

Fyrri greinÓmar og Elvar markahæstir gegn Ísrael
Næsta greinLið Byko sigraði í fimmgangi