„Gerum eins og Spánverjarnir“

Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður Selfoss, segir hug í leikmönnum Selfoss en í kvöld mætir liðið Grindavík í botnbaráttu Pepsi-deildarinnar.

„Mér líst mjög vel á leikinn í kvöld. Þetta verður erfiður leikur enda bæði lið í bullandi fallbaráttu eins og er. Þetta verður eflaust hörkuslagur og það liggur við að það séu meira en sex stig í húfi. Halldór Björnsson, markvarðaþjálfari, vildi meina að þetta væri níu stiga leikur,“ sagði Jóhann í samtali við sunnlenska.is.

Selfyssingar hafa ekki náð í stig síðan í 4. umferð þegar liðið gerði jafntefli við Stjörnuna á heimavelli. Liðið lék þó vel í síðustu umferð gegn toppliði Breiðabliks og sýndi batamerki á mörgum sviðum. „Já, við vorum allir sammála um það að þetta væri að batna hjá okkur. Það er meiri talandi og barátta úti á vellinum og allir voru að gera sitt besta. Við höfðum margt jákvætt til að taka út úr þessum leik fyrir leikinn gegn Grindavík í kvöld. Ef við höldum svona áfram þá fara stigin að tikka inn,“ segir Jóhann og bætir við að Einar Ottó Antonsson sé að koma mikilvægur inn í liðið.

„Hann smitar mikið út frá sér enda baráttan í honum ótrúleg og hann er frábær þegar hann er í toppformi. Ég held að það finnist engum þægilegt að sjá þetta flykki koma á móti sér og það skilaði okkur marki á móti Blikum,“ segir Jóhann.

Markmið allra markvarða fyrir hvern leik eru að halda hreinu og Jóhann Ólafur segir að það sé auðvitað planið í kvöld. Þó að markvörðurinn hafi verið einn af bestu mönnum Selfossliðsins í sumar hefur liðið aðeins einu sinni haldið hreinu, gegn Haukum.

„Þetta er lykillinn að því að ná í stig. Ef við höldum hreinu þá erum við öruggir með eitt stig. Síðan gerum við eins og Spánverjarnir og nýtum eitt færi sem dugar til sigurs,“ segir markvörðurinn og glottir enda þekktur stuðningsmaður þýska landsliðsins. „Já, ég er frekar svekktur síðan í gær, en mér sýnist Spánverjarnir ætla að taka þetta. Þó að þeir séu svindllið – þeir leyfa hinu liðinu ekkert að hafa boltann.“