Gerðu út um leikinn á fyrstu tuttugu mínútunum

Guðmunda Brynja Óladóttir. Ljósmynd/UMFS

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á Fjölni þegar keppni hófst í 2. deild kvenna í knattspyrnu í dag. Liðin mættust í Egilshöllinni þar sem Selfoss vann 1-5 sigur.

Selfoss gerði út um leikinn á fyrstu tuttugu mínútunum. Björgey Njála Andreudóttir kom þeim yfir á 9. mínútu og á eftir fylgdu tvö mörk frá Guðmundu Brynju Óladóttur.

Staðan var 0-3 í hálfleik en Fjölniskonur voru fyrri til að skora í seinni hálfleiknum. Þær minnkuðu muninn í 1-3 á 55. mínútu en Embla Dís Gunnarsdóttir kom Selfossi í 1-4 á 68. mínútu áður en varamaðurinn Katrín Ágústsdóttir innsiglaði 1-5 sigur á lokamínútu leiksins.

Fyrri greinHámhorfið varð að Happy Place
Næsta greinGrýlupottahlaup 2/2025 – Úrslit