Gera úrklippur Bárðar aðgengilegar almenningi

Minjaverndarsjóður knattspyrnudeildar Umf. Selfoss hefur samið við Landsbókasafn Íslands um skönnun á úrklippusafni Bárðar Guðmundarsonar um sögu knattspyrnudeildarinnar.

Úrklippusafnið verður birt á vefnum timarit.is og má búast við því að verkinu ljúki með vorinu.

Bárður á úrklippur um starf deildarinnar allt frá 1964 þegar knattspyrnan á Selfossi var endurvakin, til dagsins í dag. Safnið er í þrjátíu bókum í dagblaðabroti sem innihalda 50 síður hver.

“Úrklippusafnið hefur nýst vel við söguskrifun en er því miður ekki öllum áhugasömum aðgengilegt,” segir Bárður.

Minjaverndarsjóðurinn er búinn að vera starfandi frá 2004 en í honum sitja Björn Gíslason, Bárður Guðmundarson, Einar Jónsson, Kristinn M. Bárðarson og Þorvarður Hjaltason.