Gengið á Bjólfell í kvöld

Héraðssambandið Skarphéðinn stendur fyrir göngu á Bjólfell á Rangárvöllum kl. 19:30 í kvöld.

HSK tekur þátt í verkefninu Fjölskyldan á fjallið eins og undanfarin ár og í kvöld verður komið fyrir póstkassa uppi á Bjólfelli.

Best er að ganga á fjallið skammt frá bæjarhlaðinu í Haukadal, en sá bær sést vel frá Þingskálavegi og er við rætur fjallsins. Göngutími er um tvær klst.

Til að komast að Bjólfelli er farið upp Landveg nr. 26 frá Landvegamótum og svo inn á Þingskálaveg nr. 268, rétt ofan við Galtalæk. Einnig er hægt að fara inn á Rangárvallaveg nr. 264 rétt austan við Hellu og áleiðis upp að Gunnarsholti, en þar skammt frá er farið inn á Þingskálaveg.

Þegar ekið er inn á veginn heim að Haukadal er beygt til hægri rétt eftir að farið er yfir pípuhlíð. Þar tekur við stuttur slóði og þá er ekið í gegnum annað pípuhlið og þaðan er best að ganga á fjallið. Með þessu móti þarf ekki að fara yfir rafmagnsgirðingar til að komast að fjallinu.

Miðfell í Hrunamannahreppi er hitt fjallið sem HSK tilnefndi í verkefnið í ár og HSK gangan með póstkassann á Miðfell var farin sl. laugardag.

Áhugafólk um fjallgöngur er hvatt til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og það eru allir velkomnir í HSK göngurnar og það kostar ekkert að taka þátt.

Fyrri greinÍsólfur sveitarstjóri og Guðlaug oddviti
Næsta greinFjölskyldan á fjallið