Gengið á Bjarnafell í kvöld

HSK mun standa fyrir fjölskyldugöngu á Bjarnafell í Ölfusi í kvöld, þriðjudagskvöld, og hefst gangan kl. 19:00.

Bjarnafell í Ölfusi er 380 m yfir sjó og er frekar létt uppgöngu sem tekur um tvær klukkustundir.

Til að komast að Bjarnafelli er ekið eftir þjóðvegi 1 milli Hveragerðis og Selfoss og beygt upp Hvammsveg nr. 374. Stoppað við garðyrkjubýlið Nátthaga eða farið að sumarhúsabyggð sem er merkt Gljúfurbyggð. Þar er bílum lagt og gengið upp með Æðargili upp á Bjarnafell. Byrjunarhæð er í um 80m yfir sjó og lengd göngunnar er um 6 km.

Af Bjarnafelli sést vel yfir Ölfusið allt frá Þorlákshöfn og austur eftir hluta flóans. Einnig sést vel yfir neðri hluta Grafnings og yfir í Grímsnesið ásamt mikilli fjallasýn til norðurs og vesturs.

Göngustjóri verður Bergur Guðmundsson ritari HSK.

Gíslholtsfjall í Holtum er hitt fjallið sem HSK tilnefni í verkefnið fjölskyldan á fjallið í ár.

Fyrri greinAskan hefur ekki áhrif á vatnalíf
Næsta greinTelja trygga bankaábyrgð fyrir greiðslu