Geir og Kolbeinn í Árborg

Knattspyrnufélag Árborgar hefur fengið tvíburabræðurna Geir og Kolbein Kristinssyni lánaða frá Fjölni.

Tvíburarnir eru varnarmenn, fæddir árið 1990, og eru uppaldir í Fjölni. Geir hefur spilað 24 leiki fyrir Fjölni, þar af 9 í efstu deild og Kolbeinn hefur spilað 6 leiki fyrir Grafarvogsliðið, þar af 4 í efstu deild. Hann hefur verið fyrirliði Bjarnarins, varaliðs Fjölnis, frá því það var sett á laggirnar í fyrravor.

Bræðurnir voru lánaðir til Völsungs á Húsavík um mitt sumar í fyrra og spiluðu níu og tíu leiki fyrir Húsavíkurliðið en þeir hafa leikið með Birninum í Lengjubikarnum í vor.

Íslenski félagaskiptaglugginn lokaði í gær, sunnudag, og á lokasprettinum fengu Árborgarar einnig til liðs við sig Erling Ingason, tvítugan bakvörð sem uppalinn er í HK.

Fyrri greinFyrsti sigur Selfyssings í ralli
Næsta greinÞrjú útköll slökkviliðs