„Geggjað að ná jafntefli“

Hanna á ferðinni. Þröstur, faðir hennar, fylgist vel með. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Stjarnan skildu jöfn, 34-34, í æsispennandi handboltaleik í Olísdeild kvenna í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

„Það er geggjað að ná jafntefli eftir að hafa misst leikinn niður en við spiluðum nokkuð vel allan leikinn. Það kom þarna smá slæmur kafli þar sem við misstum þær framúr okkur í seinni hálfleik og það var erfitt að ná þeim. Þetta var kannski sanngjarnt eitt stig á hvort lið,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Hanna var tekin úr umferð allan seinni hálfleikinn en Selfyssingar leystu vel úr því á lokakaflanum. Hefði mátt gera það fyrr?

„Mögulega. Það er alltaf hægt að finna einhverjar lausnir eftir á. Nú erum við búin að prófa svona hálfleik og þá erum við bara reynslunni ríkari. Vonandi erum við fljótari að leysa úr þessu næst,“ bætti Hanna við.

Kaflaskiptur leikur
Stjarnan fór mikinn í upphafi og skoraði fyrstu þrjú mörkin en þá tóku Selfyssingar við sér og náðu þriggja marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan var 17-15 í leikhléi.

Gestirnir reyndust svo sterkari í fyrri hálfleik og voru með frumkvæðið lengst af en á æsispennandi lokakaflanum náðu Selfyssingar að svara fyrir sig og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir jafnaði 34-34 þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Hulda og Perla grimmar í vörninni
Hanna var markahæst Selfyssinga með 12/5 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 8 og var með 100% skotnýtingu, Carmen Palamariu skoraði 6 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir 3, Sara Boye Sörensen 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Hulda Dís var sterk í vörninni með níu brotin fríköst auk þess sem hún var stoðsendingahæst með 5 stoðsendingar. Perla Ruth lék einnig mjög vel í vörninni og var sömuleiðis með níu brotin fríköst.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 11 skot í marki Selfoss og var með 22% markvörslu og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 2 skot og var með 12% markvörslu.

Fyrri greinSkoruðum mark og það skiptir máli
Næsta greinMeistaraliðið í Ölfusinu óbreytt