„Geggjað að klára þetta svona“

Hákon kampakátur eftir leik ásamt dóttur sinni, Emmu Hrönn, sem er fyrirliði liðsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Ég er hrikalega sáttur með þetta. Ég er svo ógeðslega stoltur af þessum stelpum,“ sagði Hákon Hjartarson, þjálfari kvennaliðs Hamars/Þórs, sem tryggði sér sigurinn í 1. deildinni í körfubolta í kvöld og þar með sæti í úrvalsdeildinni.

Hamar/Þór sigraði Ármann 72-82 í Laugardalshöllinni, dyggilega studdar af stórum hópi stuðningsmanna, sem hreinlega áttu húsið.

„Við erum 5-4 um áramótin og töpum svo fyrir Aþenu í janúar. Síðan þá erum við með ellefu sigra í röð í deildinni, það er geggjað að klára þetta svona. Þetta er búin að vera rosaleg keppni í deildinni í vetur og hápunktur hennar var í kvöld. Þeir sem héldu því fram, þegar KKÍ fór í þessar breytingar að fjölga í úrvalsdeildinni, að það væri verið að drepa 1. deildina, ég ætla bara rétt að vona að þeir séu að tyggja all svakalega á sokknum sínum núna, þessir svokölluðu sérfræðingar í Körfuboltakvöldi,“ bætti Hákon við og glotti.

Stalst til að kíkja á stöðuna
Hamri/Þór dugði ekki aðeins að sigra í kvöld því þær þurftu að treysta á sigur Aþenu gegn KR. Það gekk eftir en naumlega þó, úrslit beggja leikja réðust á lokamínútunni og Aþena sigraði KR naumlega. En fylgdist hann með stöðunni þar?

„Ég ætlaði ekki að gera það. Ég stalst til þess að kíkja á stöðuna í hálfleik og sá að KR var yfir hinu megin. Ég spáði ekki meira í því. Við urðum alltaf fyrst að hugsa um okkur og sjá svo bara til með hinn leikinn,“ segir Hákon.

Hann á tvö ár af samningi sínum og reiknar með að Hamar/Þór mæti með svipað lið til leiks í úrvalsdeildinni næsta vetur.

„Við missum Hildi [Gunnsteinsdóttur] í háskóla til Bandaríkjanna en ég reikna með að kjarninn verði sá sami og þjálfarinn örugglega sá sami. Nú setjumst við niður og kortleggjum framhaldið, notum sumarið í að bæta okkur og svo sjáum við til hvað gerist. Við munum mæta tilbúin til leiks.“

Þurfum nýja áskorun
Það eru átta ár síðan Hamar lék síðast í efstu deild og þetta verður fyrsta tímabil sameinaðs liðs í úrvalsdeildinni. Hákon segir að þetta sé mikilvægt fyrir körfuboltann á Suðurlandi.

„Það er hrikalega gaman að fá lið af Suðurlandi í úrvalsdeildina aftur. Við erum með fimmtán manna æfingahóp og þrjár af þeim eru ekki af Suðurlandi. Þetta er ekki bara Þór og Hamar, þetta er líka Selfoss og Hrunamenn og samstarfið á milli allra þessara félaga hefur verið gott síðustu ár. Þessar stelpur eru búnar að spila lengi saman og það er auðvitað stórt skref að fara upp í úrvalsdeildina. En við þurfum þess bara. Það er fullt af leikmönnum þarna sem þurfa nýja áskorun og eru komnar á þann stað að geta spilað í deild þeirrar bestu,“ sagði Hákon glaðbeittur að lokum.

Fyrri greinHamar/Þór tryggði sér úrvalsdeildarsæti eftir háspennukvöld
Næsta greinHamar vann 50 ára afmælismót HSK í blaki