„Geggjað að fá að vera partur af þessu liði“

Sunnlendingar á leið á EM! Barbára Sól, Jóhann Ólafur Sigurðsson fjölmiðlafulltrúi KSÍ og Hjalti Rúnar Oddsson styrktarþjálfari kvennalandsliðsins. Það er gaman að segja frá því að þau hafa öll unnið það sér til frægðar að vera valin íþróttamaður Árborgar. Barbára árið 2019, Jóhann 2002 og Hjalti árið 2004. sunnlenska.is/Ólafur Pétursson

„Það er náttúrulega geggjað að fá að vera partur af þessu liði og liðsheildin er geggjuð!“

Þetta segir landsliðskonan Barbára Sól Gísladóttir frá Selfossi. Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tryggði sér í gær sæti á lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Englandi sumarið 2022.

Ísland vann Ungverjaland 0-1 á útivelli og þegar öðrum leikjum undankeppninnar var lokið í gærkvöldi var staðfest að sigurinn dugði Íslendingum til þess að komast beint í lokakeppnina.

„Við vorum ánægðar að vinna leikinn en við hefðum alveg geta unnið hann stærra. En sigur er alltaf sigur og við kláruðum okkar, og náðum í þessi 6 stig sem við ætluðum að sækja úr þessum tveimur síðustu leikjum,“ segir Barbára. Hún kom inná sem varamaður undir lok leiksins gegn Ungverjum og lét strax til sín taka – átti óaðfinnanlegan leik. Biðin eftir staðfestu sæti á EM var hins vegar löng.

„Við þurftum að bíða í fjóra klukkutíma eftir leikinn okkar til þess að fá staðfestingu um að vera komnar á EM og það var mikil spenna á þeim tíma. Þegar fréttirnar bárust um að við værum búnar að tryggja okkur sæti á EM 2022 var heldur betur fagnað, vel og lengi,“ sagði Barbára að lokum en hún lenti aftur á Íslandi í dag.

Fyrri greinÞjótandi með lægsta tilboð í ljósleiðara í Eyjum
Næsta greinÁ mjög erfitt með að vera í ósamstæðum sokkum