Gaul varði allar vítaspyrnur Fylkis

Selfyssingar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu í fyrsta sinn eftir frábæran sigur á Fylki á útivelli. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit og þar varði Alexa Gaul allar vítaspyrnur Fylkisliðsins.

Selfyssingar voru mun sterkari framan af fyrri hálfleik og fengu fyrsta færi leiksins strax eftir nokkrar sekúndur þegar Anna María Friðgeirsdóttir skaut framhjá af stuttu færi.

Það þurfti þó ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins en Selfoss komst yfir á 8. mínútu. Hrafnhildur Hauksdóttir tók þá aukaspyrnu á hægri kantinum, boltinn fór yfir Þóru Helgadóttur í marki Fylkis og á Celeste Boureille sem skaut að opnu marki og Blake Stockton hjálpaði boltanum yfir línuna.

Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum eftir markið og Fylkir ógnaði ekkert. Selfyssingum var því nokkuð brugðið þegar Carys Hawkins jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu á 38. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks skall hurð nærri hælum upp við mark Fylkis þegar Selfoss fékk hornspyrnu. Dagný Brynjarsdóttir skallaði boltann niður í teiginn þar sem Stockton náði skoti en Fylkismenn björguðu á síðustu stundu. Þessi hornspyrnuaðferð gekk þó fyllilega upp fjórum mínútum síðar og nú rataði skot Stockton í þverslána og inn, 1-2 fyrir Selfoss.

Áfram var Selfoss sterkari aðilinn í leiknum og Anna María og Guðmunda Óladóttir fengu báðar prýðileg færi á meðan Gaul þurfti aðeins einu sinni að taka á honum stóra sínum í marki Selfoss.

Þegar leið að lokum hafði leikurinn róast nokkuð og fátt var um færi. Anna Björg Björnsdóttir nýtti sér hins vegar sofandahátt Selfyssinga á 82. mínútu þegar hún fékk óáreitt að skjóta fyrir utan teig og boltinn fór í netið. Fallegt mark.

Síðustu mínútur venjulegs leiktíma lágu Fylkiskonur í sókn og Selfyssingar spiluðu ósannfærandi nauðvörn, sem hélt þó til loka.

Bæði lið fengu fín færi í upphafi framlengingarinnar, Eva Lind Elíasdóttir átti góðan sprett fyrir Selfoss sem lauk með skoti rétt framhjá á 92. mínútu og tveimur mínútum síðar varði Gaul vel hinu megin. Boureille var líka nálægt því að skora á 97. mínútu þegar hún skaut í þverslána á Fylkismarkinu.

Annars voru Selfyssingar mun sterkari í framlengingunni og Dagný Brynjarsdóttir fékk tvö færi undir lok hennar en inn vildi boltinn ekki og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Þar reyndist Alexa Gaul hetja Selfoss því hún varði allar spyrnur Fylkiskvenna og Guðmunda tryggði Selfyssingum sigurinn í fjórðu spyrnu Selfoss, lokatölur 2-5. Selfoss fer því á þjóðarleikvanginn 30. ágúst og mætir þar Stjörnunni eða Breiðabliki.

Ekki er hægt að skilja við leikinn án þess að minnast á frábæra frammistöðu Selfyssinga í stúkunni. Hundruðir Selfyssinga voru mættir á leikinn til að styðja sitt lið og hefur önnur eins stemmning ekki sést á kvennaleik hjá Selfyssingum.

Gangur vítaspyrnukeppninnar:
2-2 Þóra H. ver frá Dagnýju Brynjars.
2-2 Gaul ver frá Þóru H.
2-3 Boureille skorar fyrir Selfoss.
2-3 Gaul ver frá Heklu Eiríksdóttur.
2-4 Gaul skorar fyrir Selfoss.
2-4 Gaul ver frá Huldu Arnarsdóttur.
2-5 Guðmunda skorar fyrir Selfoss.

Fyrri greinTekjur hafnarsjóðs aukast verulega á milli ára
Næsta greinRagnar Þór lánaður á Selfoss