Ganga á Búrfell í kvöld

HSK stendur fyrir fjölskyldugöngu á Búrfell í Grímsnesi í kvöld, fimmtudag kl. 18:30. Lagt verður af stað af bæjarhlaðinu á Búrfelli.

Við upphaf göngunnar býðst þátttakendum kostur á að skoða kirkjuna á staðnum og mun Böðvar Pálsson bóndi á Búrfelli segja stuttlega frá sögu staðarins og kirkjunnar.

Gangan er liður í verkefninu, Fjölskyldan á fjallið, og er þetta 12. árið í röð sem HSK tekur þátt.

Búrfell í Grímsnesi er grasi gróið fjall í Grímsnesinu og er 536 m yfir sjávarmáli. Ef ekið er frá Selfossi er farið um Biskupstungnabraut og þaðan er farið inn á Þingvallaveg eða Sogsveg og síðan er beygt inn á Búfellsveg nr. 531. Fjallið er auðvelt uppgöngu, en gera má ráð fyrir um 2 – 3 tíma göngu. Ef ekið er frá Selfossi eru 18 km að Búrfelli.

Gönguáhugfólk er velkomið og það kostar ekkert að taka þátt.

Fyrri greinByggingu hótels í Reykholti frestað
Næsta greinHraðinn vekur ugg