Gaman er að koma í Keflavík

Íris Una Þórðardóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

„Gaman er að koma í Keflavík,“ söng Bítlavinafélagið um árið og Selfyssingar geta tekið undir þetta í kvöld. Kvennalið Selfoss vann öruggan 0-2 sigur á heimakonum í Bestu deildinni í knattspyrnu.

Markadrottningin Brenna Lovera kom Selfyssingum yfir með skallamarki strax á 3. mínútu leiksins eftir frábæran undirbúning Bergrósar Ásgeirsdóttur. Selfoss stjórnaði leiknum eftir þetta en fékk fá færi, en Unnur Dóra Bergsdóttir komst næst því að skora þegar hún skaut framhjá úr ágætu færi undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan var 0-1 í leikhléi en annað mark Selfoss kom þegar fjórtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þar var að verki Íris Una Þórðardóttir, með sitt fyrsta mark í efstu deild, gegn sínum gömlu félögum, eftir stoðsendingu frá tvíburasystur sinni, Kötlu Maríu.

Selfoss hafði áfram góð tök á leiknum og Keflvíkingar ógnuðu ekki að ráði. Mörkin urðu ekki fleiri, þrátt fyrir ágætar tilraunir Selfyssinga en lokatölur 0-2 og annar sigur Selfyssinga í röð er staðreynd.

Með sigrinum lyfti Selfoss sér upp í 5. sæti deildarinnar með 21 stig en Keflavík er í 7. sætinu með 13 stig.

Fyrri greinÁrborg undir eftir fyrri leikinn
Næsta greinÍslands- og héraðsmet féllu á Unglingalandsmótinu