„Gaman að fá stórlið“

Selfoss tekur á móti ÍA og Hamar mætir Víkingi Ólafsvík í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu en dregið var í hádeginu í dag.

Selfyssingar léku hörkuleik við Gróttu í 2. umferðinni í síðustu viku þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.

„Við erum mjög ánægðir með dráttinn. Við erum ánægðir að fá stórlið, það er alltaf gaman að fá stórlið á Selfossvöll. Skagamenn eru sennilega með sterkasta liðið í 1. deildinni,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

Leikurinn gegn ÍA verður á JÁVERK-vellinum á Selfossi mánudaginn 30. apríl kl. 18:00.

Það verður einnig Suð-Vestur landsslagur í viðureign Hamars og Víkings Ólafsvík. Hamar leikur í 4. deildinni en Víkingur í 1. deild. Viðureign liðanna verður á Grýluvelli 1. maí kl. 16. Hamar sló Árborg og Létti úr keppni á leið sinni í 32-liða úrslitin.

Fyrri greinRósa leiðir T-listann í Flóahreppi
Næsta grein„Samstarf starfsmanna BÁ og ON hefur verið afskaplega farsælt“