„Gætum truflað allar varnir í heiminum“

„Þú getur rétt ímyndað þér. Það var frábært að vera inná þegar lokaflautið kom. Ég hefði ekki viljað vera á bekknum þá.“

Þetta sagði Viðar Örn Kjartansson, laufléttur í viðtali við sunnlenska.is, að loknu 0-0 jafntefli Íslands við Kazakstan í kvöld. Með jafnteflinu tryggði karlalið Íslands sér sinn fyrsta farseðil á Evrópumeistarakeppnina. Viðar kom inná þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum og sagðist sáttur við að hafa fengið nokkrar mínútur inná í kvöld.

„Já, klárlega, þó að ég vildi að þær hefðu orðið fleiri. Mér fannst lítið að gerast síðasta hálftímann þannig að ég bjóst við að koma aðeins fyrr inná. En þetta er gríðarlega sterkur hópur sem við erum með og liðið er að spila mjög vel þannig að ég get ekki gert miklar kröfur á meðan. Það er gott að fá mínútur og vonandi verða þær fleiri í síðustu tveimur leikjunum,“

Hann sagði að leikurinn sjálfur hafi ekki verið neitt sérstakur. „Við byrjuðum ekki vel en vissum að við þurftum að vera þolinmóðir því Kasakarnir eru með mjög gott lið og miklu betra en taflan segir til um. Við þurftum stig til að komast áfram og vorum kannski svolítið kærulausir og í lokin vildum við bara halda fengnum hlut. Við viljum vinna riðilinn og vinna alla leiki sem við förum í, en í kvöld spilaðist þetta bara þannig að það var nóg að ná í stig.“

Viðar kom inná í stað Jóns Daða Böðvarssonar, í annað skiptið í keppninni, þannig að þeir eiga enn eftir að spila saman í fremstu víglínu með landsliðinu.

„Það væri draumur fyrir okkur að fá að spila saman, við höfum oft talað um það félagarnir. Ég hugsa að við gætum truflað allar varnir í heiminum ef við værum saman frammi. Við náum mjög vel saman,“ sagði Viðar, en Selfyssingarnir eru saman í herbergi á ferðalögum landsliðsins.

„Það er mjög fínt að búa með Jóni. Það var erfitt fyrst því hann er svo stríðinn, þannig að ég hef þurft að láta hann heyra það aðeins. Nei, það er voðalega fínt að búa með Jóni Daða við getum spjallað mikið saman og erum góðir félagar síðan á Selfossi,“ sagði Viðar að lokum.

Hann ætlar að skemmta sér með liðsfélögum sínum í kvöld en á morgun er frídagur. Á þriðjudag tekur svo við fimmtán tíma flug til Kína.

Fyrri greinSelfoss í 3. sæti – Hanna best og markahæst
Næsta grein„Erfitt að lýsa þessu ævintýri“