„Gæti ekki verið ánægðari“

Selfoss dróst gegn KR á útivelli í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu en dregið var í hádeginu í dag.

Selfoss sló Njarðvík út í 2. umferðinni en KR kemur inn í keppnina í 32 liða úrslitum eins og önnur lið í Pepsi-deildinni.

Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, var hæstánægður með dráttinn þegar sunnlenska.is sló á þráðinn til hans.

„Ég gæti ekki verið ánægðari, við vildum fá stórlið þar sem við gætum skapað bikarúrslitastemningu með fullt af stuðningsmönnum, rútuferðum og geðveiki svo að strákarnir okkar finni virkilega hungrið til þess að afreka og ná lengra. Við viljum keppa um stóra sigra á næstu árum,“ sagði Gunnar og skorar á Skjálftamenn að rifja upp gamla takta á leiknum.

„Það er líka langt siðan Selfoss gekk i gegnum ævintýri i kringum bikar hjá karlaliðinu og það er kominn tími á það,“ bætti Gunnar við.

Leikurinn gegn KR verður í Frostaskjóli miðvikudaginn 25. maí kl. 19:15. KR varð síðast bikarmeistari árið 2014 en liðið hefur unnið titilinn fjórtán sinnum.

Fyrri greinHéraðsdómur Suðurlands stofnun ársins 2016 hjá SFR
Næsta greinSamborg tilnefnd til foreldraverðlauna