Fyrstu trjánum plantað í afmælislund á Selsvelli

Allir fyrrverandi formenn GF og núverandi formaður, settu niður fjórar birkiplöntur í tilefni dagsins, eina plöntu fyrir hvern tug. (F.v.) Ragnar Pálsson, Ottó Leifsson, Karl Gunnlaugsson og Árni Tómasson. Ljósmynd/GF

Golfklúbburinn Flúðir hélt upp á 40 ára afmæli sitt í góðum félagsskap og afbragðs veðurblíðu á Selsvelli í Hrunamannahreppi þann 27. júlí síðastliðinn. Yfir 150 manns mætti í afmælisveisluna.

Hrunamannahreppur afhenti klúbbnum styrk sem nýtast mun við uppbyggingu á trjálundi, Almannaheillalundi, sem stofnað var til vegna afmælisins. Einnig fékk klúbburinn gjöf frá Golfbúðinni í Hafnarfirði.

Að lokinni trjáplöntun var haldið í golfskálann þar sem boðið var upp á afmæliskaffi, rjómatertur, brauðtertur og vöfflur með sultu og rjóma.

Afmælið var vel sótt og veðurblíðan var einstök. Ljósmynd/GF

Í ræðu Halldóru Halldórsdóttur, formanns afmælisnefndar GF, kom fram að stofnun og uppbygging Selsvallar hafi á sínum tíma verið fjölskylduáskorun og allir lögðu sitt af mörkum, sem og klúbbmeðlimir sjálfir. Hún minntist sérstaklega á foreldra sína, Halldór og Ástríði á Efra-Seli.

„Það er þeim að þakka að við erum saman komin hér í dag. Án þeirra bjartsýni, þors, vinnusemi og lausna hefði samfélagið ekki náð að þróast líkt og verið hefur. Ef við stöðnum núna þá erum við ekki að fylgja þeirra takti og framþróun samfélagsins. Við eigum að halda áfram sína kjark og þor, verða þar með stærri og betri, sælureitur sem við erum svo lánsöm að geta notið í leik með okkar besta fólki.“

Halldóra Halldórsdóttir flytur ræðu í afmælinu. Ljósmynd/GF

Golfklúbburinn Flúðir var stofnaður 29. júlí 1985 en völlur klúbbsins, Selsvöllur, er í landi jarðarinnar Efra-Sels í Hrunamannahreppi, 3 km frá Flúðum. Jörðin var þá í eigu hjónanna Halldórs Elís Guðnasonar og Ástríðar G. Daníelsdóttur. Karl Gunnlaugsson var kjörinn fyrsti formaður klúbbsins og gegndi því hlutverki í 25 ár. Með Karli í fyrstu stjórn GF sátu þeir Reynir Guðmundsson, ritari og Halldór Elís Guðnason, gjaldkeri.

Fyrri greinHaldið upp á 70 ára afmæli Heilsustofnunar NLFÍ
Næsta greinArgentínumennirnir afgreiddu Kríu