Fyrstu stig Selfyssinga í húsi

Byrjunarlið Selfoss í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Einar Karl Þórhallsson

Selfoss náði í sín fyrstu stig í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið sótti HK/Víking heim í Kórinn í Kópavogi. Lokatölur urðu 0-1.

Fyrri hálfleikur var jafn en Selfoss fékk mun betri færi og hefði að ósekju átt að skora tvö eða þrjú mörk. Staðan var hins vegar 0-0 í leikhléi.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og hélt áfram að skapa sér góð færi. Heimaliðið sá ekki til sólar á þessum kafla, enda leikið innanhúss, og boltinn small tvívegis í tréverkinu á marki HK/Víkings áður en Grace Rapp náði að skora eina mark leiksins með skoti af stuttu færi á 80. mínútu eftir frábæran undirbúning Barbáru Gísladóttur.

Þær vínrauðu hefðu getað bætt við fleiri mörkum en HK/Víkingur átti tvö síðustu færin í leiknum, stangarskot á 88. mínútu og dauðafæri í uppbótartíma sem Kelsey Wys varði.

Það segir sína sögu að Selfoss átti sautján marktilraunir í leiknum á móti átta marktilraunum heimaliðsins, svo sigur Selfyssinga verður að teljast sanngjarn.

Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 3 stig, fór upp fyrir Keflavík og KR en næsti leikur liðsins er einmitt gegn Keflavík á Selfossvelli á þriðjudaginn í næstu viku.

Fyrri greinOpin ráðstefna um almannavarnir og skipulag
Næsta greinHörkueinvígi framundan gegn Haukum