Fyrstu stig Selfoss í deildinni

Selfyssingar unnu sannfærandi 0-3 sigur á Gróttu í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld í rokinu á Seltjarnarnesi.

Selfyssingar léku gegn stífum vindi í fyrri hálfleik en það kom ekki að sökum og þeir réðu lögum og lofum inni á vellinum. Viðar Örn Kjartansson kom Selfyssingum yfir á 12. mínútu með góðum skalla af markteig eftir frábæran undirbúning frá Joe Tillen.

Selfyssingar voru meira með boltann í fyrri hálfleik og sóttu nokkuð stíft. Endre Brenne var nálægt því að skora á 14. mínútu með skalla eftir hornspyrnu en Kristján Finnbogason varði vel í marki Gróttu. Babacar Sarr fékk svipað færi skömmu síðar en skalli hans var máttlaus.

Á 31. mínútu komust Selfyssingar í 0-2 þegar Arilíus Marteinsson skoraði eftir snarpa sókn þar sem Jón Daði Böðvarsson og Joe Tillen voru arkitektarnir. Arilíus átti svo hörkuskot að marki fimm mínútum síðar en það fór rétt yfir.

Staðan var 0-2 í leikhléi og fyrstu mínútur seinni hálfleiks voru Selfyssingar á hælunum. Jón Daði sá til þess að vekja liðið með þriðja marki Selfyssinga á 52. mínútu. Eftir baráttu í teignum sá Jón Daði þann kost vænstan að klippa boltann viðstöðulaust upp í samskeytin frá vítapunktinum.

Skömmu síðar komst Grótta í gott færi en Jóhann Ólafur var vandanum vaxinn og varði vel.

Ekki urðu mörkin fleiri í leiknum en Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum til loka hans. Bæði lið fengu reyndar tækifæri til að bæta við mörkum en færin voru ekki mörg.

Fyrri greinReykur úr þvottavél
Næsta greinKFR með fullt hús