Fyrstu stig FSu í vetur

Lið Körfuknattleiksfélags FSu vann sinn fyrsta sigur í 1. deild karla í vetur þegar liðið vann öruggan sigur á Skallagrím í Iðu 104-90.

Fyrsti leikhluti var jafn en undir lok hans skoraði FSu tíu stig í röð og náði sjö stiga forskoti, 26-19. FSu lét forystuna ekki af hendi eftir þetta en staðan í hálfleik var 42-31.

Þriðji leikhluti var jafn en FSu jók forskotið um fjögur stig og staðan var 71-56 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Á lokakaflanum spiluðu liðin allt annað en vörn og var skothríðin mikil á báða bóga. FSu hélt fengnum hlut og leikmenn liðsins fögnuðu fjórtán stiga sigri að lokum, 104-90.

Orri Jónsson skoraði 24 stig í leiknum og Bjarni Bjarnason 22. Sæmundur Valdimarsson átti mjög góðan leik og skoraði 18 stig og Kjartan þjálfari Kjartansson skoraði 13 stig auk þess að taka átta fráköst.

Fyrri greinHveragerði lagði meistarana
Næsta greinFrábærir tónleikar með Jónasi og Ritvélunum