Fyrstu stig Ægis – Hamar og KFR töpuðu

Ægir náði í sín fyrstu stig í 2. deild karla í knattspyrnu í dag á meðan KFR og Hamar töpuðu leikjum sínum í 3. deildinni.

Ægir fékk Völsung í heimsókn í Þorlákshöfn og Darko Matejic kom heimamönnum yfir strax á 7. mínútu leiksins. Völsungar jöfnuðu metin á 31. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik en Matejic var aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik og tryggði Ægi 2-1 sigur með öðru marki sínu. Matthew Towns lék sinn fyrsta leik fyrir Ægi í dag en hann er 32 ára enskur markvörður sem kom til liðsins undir lok félagaskiptagluggans. Towns lék síðast í efstu deild á Möltu.

Í 3. deildinni fékk Hamar Hött frá Egilsstöðum í heimsókn og Hvergerðingar fóru þar með 2-0 forystu inn í leikhléið. Gunnar Páll Pálsson kom Hamri yfir á 27. mínútu og Ingþór Björgvinsson jók forskotið með marki úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Hvergerðingar misstu leikinn hins vegar niður í síðari hálfleik, gestirnir minnkuðu muninn í 2-1 á 67. mínútu og skoruðu svo tvö mörk í röð á lokamínútunum, en sigurmarkið kom í uppbótartíma.

KFR tók á móti Magna í roki og rigningu á Hvolsvelli og þar skoruðu gestirnir eina mark leiksins í fyrri hálfleik. KFR er því án stiga, eins og Hamar, þegar tveimur umferðum er lokið í 3. deildinni.