Fyrstu landsleikirnir í íþróttahúsinu á Flúðum

Fyrstu landsleikirnir í körfubolta í íþróttahúsinu á Flúðum fara fram á laugardaginn þegar U15 ára lið Íslands og Írlands í körfubolta munu eigast við.

Árni Þór Hilmarsson, þjálfari U15 ára liðsins, hefur kallað saman tuttugu stúlkna hóp sem mun leika fjóra æfingaleiki gegn liði Írlands um næstu helgi.

Lið Íra kemur hingað á eigin vegum og er þetta í fyrsta sinn sem U15 ára lið kemur hingað til lands og íþróttahúsið á Flúðum verður 27. húsið sem landsleikur fer fram í á Íslandi.

Leikmönnum verður skipt í tvö lið og því leika liðin tvo leiki á dag, á laugardag verður leikið á Flúðum kl. 14:00 og 16:00 og á sunnudag verður leikið í Grindavík kl. 11:00 og 13:00.

Þrír sunnlenskir leikmenn eru í leikmannahópi Íslands um helgina, Perla María Karlsdóttir, Hrunamönnum og þær Gígja Marín Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir, sem báðar leika með Hamri.

Fyrri greinJónas og Ritvélarnar í Skyrgerðinni
Næsta greinÓkeypis námsgögn í Ölfusi