Fyrstu HSK metin í nýju höllinni

Helga Fjóla Erlendsdóttir. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson

Nokkur æfingamót í frjálsum íþróttum fóru fram í nýju höllinni á Selfossi skömmu fyrir jól, en húsið var tekið í notkun í haust. Tvö HSK met voru sett á mótunum og eru þetta fyrstu HSK metin sem sett eru í húsinu.

Helga Fjóla Erlendsdóttir úr Garpi stórbætti HSK metið í 60 metra grindahlaupi í flokki 12 ára stúlkna þann 17. desember. Hún hljóp á 10,87 sek og bætti 10 ára met Höllu Maríu Magnúsdóttur um rúma sekúndu, gamla metið var 11,88 sek.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson úr Umf. Selfoss setti HSK met í þrístökki í flokki 13 ára þann 20. desember. Hann stökk lengst 11,46 metra og bætti 10 ára gamalt met Bjarka R. Bjarnasonar um 24 sentimetra.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson. Ljósmynd/Frjálsíþróttasamband Íslands
Fyrri greinVísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands styrkir tvö ný rannsóknarverkefni
Næsta greinEinar ráðinn framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu