Uppsveitir eru komnar á blað í 5. deild karla í knattspyrnu eftir 1-2 sigur gegn Reyni Hellissandi í hörkuleik í Ólafsvík í dag.
Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik en á 28. mínútu braut Kristjón Vattnes ísinn þegar hann þrumaði boltanum upp í þaknetið á marki Sandara eftir hornspyrnu. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var 0-1 í leikhléi.
Um miðjan seinni hálfleikinn fengu heimamenn vítaspyrnu og jöfnuðu úr henni en Uppsveitamenn voru heldur óhressir með vítaspyrnudóminn. Þeir létu það þó ekki aftra sér og á 69. mínútu skoraði Vésteinn Loftsson sigurmarkið eftir klafs í vítateig Reynis. Fyrsti sigur Uppsveita í sumar staðreynd.
Mínútu þögn var fyrir leikinn og spiluðu Uppsveitamenn með sorgarbönd til minningar um Víglund Þorsteinsson, iðkanda og stuðningsmann ÍBU, sem lést af slysförum í síðustu viku.
Uppsveitir eru í 7. sæti A-riðils með 3 stig en Reynir Hellissandi er í botnsætinu, án stiga.