Fyrsti sigur Stokkseyringa

Stokkseyri vann sinn fyrsta leik í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á þessu tímabili þegar liðið mætti Vatnaliljunum á Selfossvelli í dag.

Vatnaliljurnar sóttu meira í upphafi leiks en Stokkseyringar áttu skyndisóknir inn á milli og úr einni slíkri skoraði Bjarni Már Ólafsson um miðjan fyrri hálfleik.

Staðan var 1-0 í hálfleik en Vatnaliljurnar náðu að jafna metin í upphafi síðari hálfleiks og fengu svo vítaspyrnu í kjölfarið, sem fór forgörðum.

Stokkseyringar svöruðu að bragði og Örvar Hugason og Guðmundur Aron Víðisson bættu við tveimur mörkum fyrir þá rauðu og lokatölur urðu 3-1.

Stokkseyri hefur nú 3 stig en er áfram í botnsæti riðilsins.

Fyrri greinBenedikt hættir hjá Þór
Næsta greinVerkfall BHM mun hafa víðtæk áhrif á starfsemi HSu