Fyrsti sigur Stokkseyrar – KFR tapaði heima

Mikael Andri Þrastarson sækir að marki BF 108 í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri vann sinn fyrsta sigur í 5. deild karla í knattspyrnu í sumar þegar liðið heimsótti Úlfana. Á sama tíma tapaði KFR heima gegn BF 108.

Stokkseyringar lentu undir strax á 8. mínútu í Úlfarsárdalnum og þeim tókst ekki að svara fyrir sig í fyrri hálfleik þrátt fyrir ágætar tilraunir. Úlfarnir fengu svo vítaspyrnu en Gabriel Thull, markvörður Stokkseyrar, varði hana glæsilega. Staðan var 1-0 í hálfleik en í leikhléinu gaf dómari leiksins Rúnari Birgissyni, samfélagsmiðlastjóra Stokkseyrar, rauða spjaldið. Heimildir Sunnlenska segja að samtal þeirra hafi verið yfirvegað en Rúnar þurfti að sætta sig við að horfa á seinni hálfleikinn úr stúkunni.

Þrátt fyrir þetta áfall byrjuðu Stokkseyringar vel í seinni hálfleik og Hafþór Berg Ríkharðsson jafnaði metin á 54. mínútu. Skömmu síðar misstu Úlfarnir mann af velli með rautt spjald og þjálfari liðsins fór sömu leið. Stokkseyringar stýrðu leiknum og leituðu að sigurmarkinu og fundu það loks á 80. mínútu. Þeir fengu þá aukaspyrnu á hættulegum stað og Ingvi Rafn Óskarsson smurði boltanum glæsilega í netið. Lokatölur 1-2 og fyrsti sigur Stokkseyringa í sumar staðreynd.

Veðurbarðir Rangæingar lutu í gras
Það var rok og kuldi á Hvolsvelli þar sem BF 108 var í heimsókn. Gestirnir léku með stífan vind í bakið í fyrri hálfleiknum og uppskáru mark um hann miðjan. Staðan var 0-1 í hálfleik og þær urðu reyndar lokatölur leiksins. Rangæingar sóttu þungt að marki BF 108 í upphafi seinni hálfleiks en tókst ekki að skora. Heimamönnum gekk illa að stýra boltanum og gestirnir áttu stórhættulegar skyndisóknir og voru nær því að skora. KFR átti skot í þverslána úr hornspyrnu en gekk annars illa að skapa færi í meðvindinum.

Staðan í B-riðlinum er þannig að KFR er í 3. sæti með 6 stig en Stokkseyri er í 7. sæti með 3 stig.

Fyrri greinSjálfstæðisflokkurinn stærstur í Suðurkjördæmi
Næsta greinSchengen er sannarlega vandamálið