Fyrsti sigur Skallagríms kom í Hveragerði

Franck Kamgain var stigahæstur Hvergerðinga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tók á móti Skallagrím í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Gengi beggja liða hefur verið dapurt í upphafi móts og því mikilvæg stig í boði.

Skallagrímur náði tíu stiga forskoti á fyrstu fjórum mínútum leiksins og leiddi 17-24 að loknum 1. leikhluta. Stigunum rigndi í 2. leikhluta en gestirnir héldu forskotinu og staðan var 50-58 í hálfleik.

Borgnesingar gerðu út um leikinn í 3. leikhluta, þar sem þeir náðu 30 stiga forskoti en Hamar náði að klóra í bakkann á lokakaflanum. Þeir náðu þó ekki að koma í veg fyrir öruggan sigur Skallagríms en lokatölur urðu 95-118.

Franck Kamgain var atkvæðamestur í liði Hamars með 24 stig.

Þetta var fyrsti sigur Skallagríms í vetur en þeir lyftu sér upp í 8. sæti deildarinnar og hafa 2 stig. Hamar er í 10. sætinu, sömuleiðis með 2 stig.

Hamar-Skallagrímur 95-118 (17-24, 33-34, 17-36, 28-24)
Tölfræði Hamars: Franck Kamgain 24/6 fráköst/5 stolnir, Lúkas Aron Stefánsson 18/5 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Egill Þór Friðriksson 11, Jens Klostergaard 10, Birkir Máni Daðason 9, Atli Rafn Róbertsson 7/5 fráköst, Arnar Dagur Daðason 3, Kristófer Kató Kristófersson 2.

Fyrri greinEr með gula beltið í karate
Næsta greinLagið sem jólin stálu