Fyrsti sigur Selfyssings á borðtennismóti

Eyþór Birnir efstur á palli. Ljósmynd/BTÍ

Eyþór Birnir Stefánsson, Umf. Selfoss, vann fyrsta sigur Umf. Selfoss á móti í aldursflokkamótaröð Borðtennissambands Íslands, og líklega fyrsta sigur Umf. Selfoss borðtennismóti á vegum BTÍ, þegar hann sigraði í sveinaflokki á aldursflokkamóti KR um síðustu helgi.

Mótið var haldið í Íþróttahúsi Hagaskóla laugardaginn 6. febrúar og voru skráðir keppendur 62 talsins frá BH, Garpi, HK, KR, Umf. Selfoss og Víkingi.

Fleiri Sunnlendingar komust á verðlaunapall. Lisbeth Viðja Hjartardóttir, Garpi, sigraði í telpnaflokki og í tátuflokki varð Sóldís Lilja Sveinbjörnsdóttir, Garpi, í 3. sæti og Lea Mábil Andradóttir, Garpi, í 4. sæti. Elvar Ingi Stefánsson, Umf. Selfoss, varð síðan í 3.-4. sæti í piltaflokki.

Æfingar á vegum borðtennisnefndar Umf. Selfoss fara fram í Fjallasal Sunnulækjarskóla á Selfossi. Spilað er á fimm borðum tvisvar í viku, miðvikudaga og föstudaga kl. 17:30-19:00. Aldur er miðaður að 5. -10. bekk grunnskóla og eru lánsspaðar í boði fyrir þá sem vilja prófa.

Lisbeth Viðja Hjartardóttir sigraði í telpnaflokki. Ljósmynd/BTÍ
Fyrri greinMannbroddar nauðsynlegir í Reykjadal
Næsta greinSelfossliðin töpuðu bæði