Fyrsti sigur Selfoss í 20 ár

Selfyssingar sigruðu Hauka, 32-30, í úrslitaleik Ragnarsmótsins í handbolta sem lauk á Selfossi í dag.

Leikurinn var jafn framan af og staðan í hálfleik var 15-15. Selfyssingar voru hinsvegar einbeittir í síðari hálfleik og náðu fljótlega fjögurra marka forystu. Haukar minnkuðu muninn í lokin en það var of seint og Selfoss landaði sigri.

Guðjón Drengsson skoraði 10 mörk fyrir Selfoss, Atli Kristinsson 8 og Ragnar Jóhannsson 6. Birkir Bragason varði 14 skot í markinu en hann var besti maður Selfyssinga í dag ásamt Guðjóni. Birkir var í mótslok valinn besti markvörður mótsins.

Þetta er fyrsti sigur Selfyssinga á Ragnarsmótinu síðan árið 1990. Mótið er nú haldið í 21. skipti til minningar um Ragnar Hjálmtýsson sem lést í bílslysi í september árið 1988.

FH lagði Val í hörkuleik um 5. sætið, 24-23. Þá lagði HK Fram 38-34 í leiknum um 3. sætið. Bjarki Már Elísson, fyrrum leikmaður Selfoss, átti stórleik og skoraði 12 mörk. Bjarki Már var valinn besti sóknarmaður mótsins auk þess að vera markahæstur á mótinu með 26 mörk. Félagi hans úr HK, Ólafur Bjarki Ragnarsson var valinn besti leikmaður mótsins. Freyr Brynjarsson úr Haukum var valinn besti varnarmaðurinn.