Fyrsti sigur KFR

Knattspyrnufélag Rangæinga vann sinn fyrsta leik í 2. deild karla í sumar þegar liðið skellti Aftureldingu 4-0 á Hvolsvelli í kvöld.

Rangæingar komu inn í leikinn með mikla baráttu og Mateuz Lis kom þeim yfir strax á 12. mínútu. Tíu mínútum síðar var staðan orðin 3-0 eftir að Þórhallur Lárusson hafði sett boltann tvívegis í netið.

Afturelding gerði harða atlögu að marki KFR í seinni hálfleik en Rangæingar stóðu það áhlaup af sér og héldu hreinu. Mörk KFR hefðu getað orðið fleiri en þeir áttu m.a. stangarskot auk þess sem umdeilt rangstöðumark var dæmt af þeim. Diego Sepulveda batt endahnútinn á góðan leik KFR með fjórða marki liðsins í uppbótartíma.

Þrátt fyrir sigurinn sitja Rangæingar áfram á botni deildarinnar, nú með fjögur stig, eins og Fjarðabyggð en austanliðið hefur betra markahlutfall. Hamar er í 10. sæti með fimm stig.

reynir_bjorgvinssno4_0_621084783.jpg
Reynir Björgvinsson vallarstjóri mátti hafa sig allan við að uppfæra stöðuna á töflunni. sunnlenska.is/Finnur Bjarki