Fyrsti sigur Heiðrúnar Önnu á stórmóti

Heiðrún Anna og Dagbjartur að loknu móti. Ljósmynd: golf.is/seth

Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Golfklúbbi Selfoss, fagnaði sínum fyrsta sigri á ferlinum í dag á „Mótaröð þeirra bestu“ þegar Egils Gull-mótinu lauk á Þorlákshafnarvelli.

„Þetta er stórkostlegt, frábær tilfinning og gaman að vinna. Ég er búin að æfa vel í allan vetur, undirbúningurinn var góður, ég teiknaði upp allar flatirnar og fór vel yfir völlinn. Ég var að slá vel og pútterinn var heitur,“ sagði Heiðrún Anna í viðtali eftir mót

Hún spilaði hringina þrjá á 209 höggum, fjórum höggum undir pari en fyrsta daginn lék hún á 70 höggum, einu undir pari, og var það í fyrsta sinn sem hún spilaði hring undir pari á móti. Annan hringinn lék hún á 72 höggum en gerði svo gott betur í dag þegar hún sótti sigurinn með því að spila á fjórum höggum undir pari, á 67 höggum.

„Það var frábært að spila fyrsta hringinn minn í móti undir pari og í dag var þetta ennþá betra,“ bætti Heiðrún Anna við.

Fyrir lokakeppnisdaginn var Heiðrún Anna í öðru sæti og þurfti því að sækja til sigurs. Það gekk eftir en hún spilaði frábært golf í dag og setti vallarmet.

Í karlaflokki sigraði Dagbjartur Sigurbrandsson, Golfklúbbi Reykjavíkur, á 208 höggum, átta höggum undir pari. Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, varð í 19. sæti á 216 höggum.

Fyrri greinSláttur hafinn á Suðurlandi
Næsta greinRangárþing ytra gerir samstarfssamning við Golfklúbbinn Hellu