Fyrsti sigur Hamars í deildinni

Hamar vann sinn fyrsta sigur í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta þegar liðið lagði Fjölni á heimavelli í kvöld, 87-69.

Hamarskonur voru ferskar frá upphafi og skoruðu fyrstu níu stig leiksins. Fjölnir skoraði þá tíu stig í röð og breytti stöðunni í 9-10 en Hamar náði forystunni strax aftur og lét hana ekki af hendi það sem eftir lifði leiks. Staðan var 23-18 að fyrsta leikhluta loknum.

Fjölnir minnkaði muninn í tvö stig í upphafi 2. leikhluta en síðan tók Hamar öll völd í leiknum og þær náðu tíu stiga forskoti, leiddar áfram af Hannah Tuomi sem var sterk undir körfunni og skoraði 12 stig í 2. leikhluta. Staðan var 44-34 í hálfleik.

Fjölnir náði aldrei að ógna Hamri í seinni hálfleik og munurinn jókst enn frekar í upphafi 3. leikhluta. Þar lagði Hamar grunninn að sigrinum með því að spila grimma vörn og Fjölniskonur komust ekkert áleiðis. Hamar náði á tímabili 22 stiga forystu, 67-45, en Fjölnir náði að minnka muninn í 71-59 í upphafi 4. leikhluta. Nær komst Fjölnir ekki og Hamar vann sanngjarnan sigur.

Samantha Murphy og Hannah Tuomi voru frábærar í kvöld. Murphy skoraði 30 stig, tók 8 fráköst, sendi 9 stoðsendingar og stal 6 boltum. Tuomi skoraði sömuleiðis 30 stig og tók 19 fráköst þar að auki. Álfhildur Þorsteinsdóttir lék einnig vel, sérstaklega í síðari hálfleik en hún skoraði 14 stig og tók 7 fráköst. Bylgja Sif Jónsdóttir skoraði 5 stig og Marín Laufey Davíðsdóttir 4 auk þess að taka 10 fráköst. Rannveig Reynisdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir skoruðu báðar 2 stig og Dagný Laufey Davíðsdóttir tók 4 fráköst.

Þrátt fyrir sigurinn er Hamar enn í botnsæti deildarinnar með 2 stig eins og Haukar og Njarðvík.