Hamar og Selfoss unnu leiki sína í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en Hrunamenn töpuðu sínum leik.
Hamar vann sinn fyrsta sigur í deildinni í vetur þegar Skallagrímur kom í heimsókn í Hveragerði. Staðan var 29-30 í leikhléi og leikurinn var í járnum fram í 4. leikhluta en þar léku Hamarsmenn mjög vel og tryggðu sér sanngjarnan 78-64 sigur. Dareial Franklin var bestur í liði Hamars með 31 stig, Kristian Vladovic og Pálmi Geir Jónsson skoruðu 12 og Vladovic tók 10 fráköst að auki og Ragnar Magni Sigurjónsson skoraði 11 stig.
Selfoss vann öruggan sigur á ÍA á Akranesi. Staðan í hálfleik var 27-38 og í seinni hálfleik bættu Selfyssingar enn við forskot sitt og sigruðu 66-87. Óli Gunnar Gestsson skoraði 23 stig fyrir Selfoss og tók 14 fráköst, Vito Smojer skoraði 19 stig og Gasper Rojko lék sömuleiðis vel með 14 stig og 12 fráköst.
Hrunamenn mættu Sindra á Hornafirði. Staðan var 39-41 eftir jafnan fyrri hálfleik en í 3. leikhluta höfðu heimamenn öll völd og náðu tuttugu stiga forskoti. Hrunamenn náðu ekki að svara fyrir sig í 4. leikhluta og lokatölur urðu 92-73. Clayton Ladine var stigahæstur Hrunamanna með 21 stig, Kent Hanson skoraði 20 og tók 12 fráköst og Karlo Lebo skoraði 15 stig.
Þegar flest lið í deildinni hafa spilað þrjá leiki eru Selfyssingar í 4. sæti með 4 stig, Hamar í 6. sæti með 2 stig og Hrunamenn í 8. sæti með 2 stig.