Fyrsti sigur Hamars

Hamar vann sinn fyrsta sigur í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í vetur þegar liðið lagði Keflavík í jöfnum leik á heimavelli í gær.

Liðin skiptust á um að halda forystunni í 1. leikhluta en að honum loknum var staðan 23-19. Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta en Hamar hélt forystunni í leikhléi, 34-32.

Hvergerðingar höfðu frumkvæðið í 3. leikhluta og við tók spennandi lokakafli.

Keflavík náði fjögurra stiga forskoti, 54-58, þegar tvær mínútur voru liðnar af 4. leikhluta og virtust ætla að tryggja sér sigurinn. Íris Ásgeirsdóttir var hins vegar ekki á því og hún skoraði fimm stig á síðustu þrjátíu sekúndum leiksins, og tryggði Hamri eins stigs sigur, 70-69.

Hamar er áfram í botnsæti deildarinnar, nú með tvö stig, en Keflavík er í 3. sæti með 6 stig, þegar átta umferðum er lokið.

Tölfræði Hamars: Suriya McGuire 23 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 15 stig/5 fráköst/3 varin skot (23 í framlagseinkunn), Íris Ásgeirsdóttir 12 stig/5 fráköst, Helga Vala Ingvarsdóttir 6 stig, Heiða Björg Valdimarsdóttir 5 stig, Nína Jenný Kristjánsdóttir 5 stig/6 fráköst, Jenný Harðardóttir 2 stig, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 2 stig/4 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 4 fráköst.

Fyrri greinGunnar endurkjörinn formaður
Næsta greinNaumt tap á útivelli