Fyrsti sigur Gróttu kom gegn Selfyssingum

Selfoss tapaði nokkuð óvænt fyrir botnliði Gróttu í Olísdeild karla í handbolta á útivelli í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Gróttu í deildinni í vetur.

Selfyssingar komust aldrei almennilega í gang í sóknarleiknum í kvöld og Grótta hafði frumkvæðið lengst af. Staðan í leikhléi var 12-11.

Grótta jók forskotið í seinni hálfleik og þegar sex mínútur voru eftir var munurinn fjögur mörk, 20-16. Selfyssingar svöruðu þá rækilega fyrir sig og hefðu getað jafnað metin úr síðustu sókn leiksins en Hreiðar Levý Guðmundsson varði síðasta skotið frá Einari Sverrissyni á lokasekúndunum og Grótta sigraði 22-21.

Teitur Örn Einarsson og Haukur Þrastarson voru markahæstir Selfyssinga með 5 mörk, en Teitur skoraði þrjú af vítalínunni. Atli Ævar Ingólfsson og Einar Sverrisson skoruðu 4, Hergeir Grímsson 2 og Sverrir Pálsson 1.

Sölvi Ólafsson kom eterkur inn í markið hjá Selfyssingum síðari hluta leiksins og varði 11 skot, en Helgi Hlynsson varði 3/1.

Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 10 stig að loknum níu leikjum en Grótta er áfram í botnsætinu, nú með tvö stig.

Fyrri greinSkotvopn haldlögð hjá fimm veiðimönnum
Næsta greinHamarsmenn fóru á kostum í sókninni