Fyrsti sigur FSu í deildinni

FSu vann sinn fyrsta sigur í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið mætti Hetti á útivelli. Þór Þ tapaði á sama tíma fyrir Grindavík heima.

Leikur Hattar og FSu á Egilsstöðum var jafn allan tímann en FSu lagði allt undir í síðasta fjórðungnum og náði að tryggja sér sigur. Staðan var 41-36 fyrir Hetti í hálfleik og heimamenn leiddu ennþá þegar síðasti leikhlutinn hófst, 59-46.

FSu komst yfir 66-68 þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka og lét forystuna ekki af hendi eftir það. Skólapiltarnir voru sterkari á lokakaflanum og unnu dýrmætan sigur.

Tölfræði FSu: Cristopher Caird 20 stig/14 fráköst (23 í framlagseinkunn), Ari Gylfason 18 stig/7 fráköst, Hlynur Hreinsson 16 stig/6 fráköst, Birkir Víðisson 12 stig, Arnþór Tryggvason 6 stig/6 fráköst, Gunnar Harðarson 5 stig, Geir Helgason 3 stig, Maciej Klimaszewski 2 stig.

Á sama tíma mættust Þór Þ og Grindavík í Þorlákshöfn. Þórsarar hafa verið á miklu skriði í deildinni og unnið fjóra leiki í röð.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og staðan að honum loknum 38-39. Grindvíkingar mættu hins vegar betur stemmdir inn í seinni hálfleikinn og byrjuðu á 4-14 áhlaupi. Staðan var 51-60 þegar 4. leikhluti hófst en þegar þrjár mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í tvö stig, 70-72. Nær komust Þórsarar ekki og gestirnir kláruðu leikinn af öryggi, 74-84.

Tölfræði Þórs: Vance Hall 23 stig/8 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 18 stig/14 fráköst (24 í framlagseinkunn), Þorsteinn Már Ragnarsson 12 stig/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 12 stig, Ragnar Örn Bragason 5 stig, Emil Karel Einarsson 4 stig/6 fráköst.

Þórsarar eru í 5. sæti deildarinnar með 8 stig en FSu er í 11. sæti með 2 stig.

Fyrri greinSelfoss vann tveggja marka sigur
Næsta greinÖruggt hjá Hamri gegn botnliðinu