Fyrsti sigur Ægis í deildinni

Cristofer Rolin skoraði fyrir Ægi í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn unnu sinn fyrsta sigur í Lengjudeild karla í knattspyrnu í sumar þegar þeir heimsóttu Vestra á Ísafjörð í dag.

Vestramenn voru sterkari í fyrri hálfleik en Ivaylo Yanachkov stoppaði allt sem kom að marki Ægis. Það var því gegn gangi leiksins þegar Cristofer Rolin kom Ægi yfir á 37. mínútu þegar hann fékk frábæra sendingu innfyrir vörn Vestra og skoraði af öryggi. Fyrsta mark Rolin í sumar.

Staðan var 0-1 í hálfleik og fjörið byrjaði strax á 5. mínútu síðari hálfleiks þegar Vestramenn jöfnuðu með góðu skallamarki. Ægismenn lögðu ekki árar í bát og áttu fínan kafla í kjölfarið og á 58. mínútu skoraði Baldvin Þór Berndsen af stuttu færi. Það reyndist sigurmark leiksins.

Bæði lið áttu fínar sóknir á lokakaflanum og í uppbótartímanum átti Yanachkov frábæra markvörslu og bjargaði stigunum fyrir Ægi. Lokatölur 1-2.

Þrátt fyrir sigurinn er Ægir áfram á botninum, nú með 4 stig en Vestri er í 10. sæti með 9 stig.

Fyrri greinGjaldtaka hafin í Fjaðrárgljúfri
Næsta greinÁ meðan lífsins stundir tifa