Fyrsti leikur Þórs í kvöld

Dominos-deildin í körfubolta hefst í kvöld og þá mætir Þórsliðið Njarðvík á heimavelli kl. 19.15. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, er hóflega bjartsýnn í upphafi tímabils.

„Við erum ekkert að fara að toppa núna í byrjun, en við erum vonandi nógu klárir í fyrstu leikina til að ná einhverjum úrslitum,“ segir Benedikt.

Hann segir að það sé gaman að byrja mótið á heimaleik. „Njarðvík var með ungt lið í fyrra en nú eru allir einu ári eldri og maður hefur heyrt að þeir séu með tvo góða kana sem lofa góðu. Þannig að það er náttúrlega bara erfiður andstæðingur.“

Ekki hafa verið gerðar miklar breytingar á leikmannahópi liðsins frá síðasta vetri. „Það eru bara nýir erlendir leikmenn. Það tekur alltaf sinn tíma,“ segir Benedikt, en liðið fékk erlendu leikmennina seint inn í hópinn. „Þannig að við eigum eftir að búa til heild úr þessu.“

Græni drekinn, stuðningsmenn Þórs, voru áberandi á síðasta tímabili og áttu sinn þátt í velgengni liðsins. Benedikt segir að það muni reyna á alla í vetur, ekki bara þjálfara og leikmenn. „Líka alla sem eru að styðja okkur og eru í kringum þetta, að halda þessari stemmningu áfram,“ segir Benedikt.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu